Fróðleikur Slippfélagsins

Slippfélagið hefur í gegnum árin verið leiðandi í að upplýsa og fræða málara og almenning um málningu og málningarkerfi. Hér að neðan er hluti af þeim gögnum sem Slippfélagið hefur tekið saman.

Steinn utanhúss

Ýmislegt um steinsteypu, efni og málningakerfi á stein utanhúss

Steinsteypa er eitt algengasta byggingarefni húsa hér á landi. Málning er jafnframt mikið notuð til að verja stein gegn niðurbroti og til fegrunar. Þegar steinsteypa er máluð er að mörgu að huga, þar mætti nefna sprunguviðgerðir, sílanböðun og mismunandi eiginleikar málningarefna.

Hér fjöllum við um ýmis þau mál sem geta komið upp á, atriði til umhugsunar fyrir málun steinsteypu og margt fleira sem gott er að vita um verndun og eiginleika steinsteypu.

Viður utanhúss

Álagsþættir, ending, viðarvörn og málningakerfi

Viður er náttúrulegt byggingarefni sem er mikið notað hér á landi. Mætti þar t.d. nefna í einbýlishús, sumarbústaði, skjólveggi, veggjaklæðningar og gluggalista, svo eitthvað sé nefnt. Viður hefur ekki einsleitt yfirborð, heldur fjölskyldu af yfirborðum, þar sem að mörgu er að huga við málun. Málning er jafnframt nauðsynleg þáttur til að fegra og verja viðkvæman við utanhúss gegn náttúrulegu álagi. Þar þarf meðal annars að glíma við skemmdir af völdum sólar, vatns og fúa. Hér verður fjallað um ýmis þau mál sem geta komið upp á.

Skip og stál

Um stál, tæringu, undirbúning, val á málningarefnum og málningarkerfum.

Rétt málningarkerfi skiptir höfuðmáli til að fá viðunandi tæringarvörn og árangur. Aftur á móti getur margt komið upp á sem getur rýrt gæði kerfisins. Mætti þar nefna umhverfisþætti líkt og of hátt rakastig og of lágt hitastig. Einnig geta átt sér stað mannleg mistök. Það er hægt að nota rangan herðir eða þynni, hræra efnum illa saman eða setja of lága filmuþykkt. Þau geta einnig verið vegna ónógs hreinleika og hrjúfleika.

Áður en hafist er handa við málningarvinnu er mikilvægt að skipuleggja sig vel í tíma. Um margar leiðir er að velja, bæði varðandi efni og aðferðir. Hér er fjallað um efnið stál, undirbúning, val á málningarefnum og málningarkerfumu.

Gifsveggir

Gifsplötur, spartl, spörtlun, verkfæri og málningarvinna.

Hér fjöllum við um uppsetningu og yfirborðmeðhöndlun gifsplötuveggja. Markmiðið er að gefa handhægar upplýsingar um gifsplötur, notkun þeirra í veggi, spartl og málningu.

Að mörgu er að taka í efnisvali um vinnslu gifsplatna, enda eru til mismunandi efni og aðferðir, hver með sínum kostum og göllum. Við tókum saman helstu atriði og þætti varðandi vinnslu gifsveggja. Jafnframt er fjallað um viðeigandi reglugerðir, helstu uppbyggingu efna, notkun efna og verkfæra og ýmsar þumalputtareglur. Það er víða vísað í frekari upplýsingar, t.d.í bæklingum, bókum eða heimasíðum.

Ýmis fróðleikur um málningu.

Málning

Hvað er málning?

Málning er gerð úr hráefnum sem eru flokkaðar í fimm meginþætti. Hér fjöllum við í stuttu máli um efnin og hlutverk þeirra.

Plastmálning

Eiginleikar

Hrein akrýlmálning, stýren akrýl málning og PVA málning. Þessi bindiefni gefa málningunni mismunandi eiginleika.

Saltsýruþvottur á yfirborði steypu

Á yfirborði steypu liggur oft laust bundin sementshúð, sem flagnar að lokum af. Sementshúðina verður því að fjarlægja fyrir málun.

Umhverfisvæn málningarefni

Vatnsþynnanleg og umhverfisvæn efni hafa orðið betri og sterkari. Dæmi um það er akrýlmálning sem inniheldur hreint akrýlbindiefni, s.s. Bett og Hemukrýl.

Plastdúka-rakapróf

Leiðbeiningar

Hversu blaut má steinsteypa vera fyrir málun? Einfalt próf er að framkvæma svokallað plastdúkapróf.

Gott að vita.

Að mála innanhús

Gott að hafa í huga áður en byrjað er …

Loft eru alltaf máluð á undan veggjum, svo ekki fari málning á nýmálaða veggina.

Loft eru oftast höfð ljósari en veggir. Þannig skynjum við herbergi stærri og rýmri.

Aukin gljái gerir misfellur á yfirborði meira áberandi. Mött málning felur misfellur betur en gljáandi.

Ekki er ráðlagt að mála loft með hærra gljástig en 5. Á veggi í herbergjum og stofu er hægt að nota meira t.d. gljástig 10-20.

Í eldhúsi og baðherbergi er mælt með enn hærra gljástigi, t.d. með Akrýl 35 málningu.

Augað skynjar liti mismunandi eftir gljáa, og mattari málning gefur ljósari tón.

Litir virðast sterkari á stórum flötum. Veljið því daufari liti á stóra fleti og sterkari á litla.

Lýsing hefur áhrif á liti.

Byrjið ekki á nýrri málningardós á miðjum vegg.

Rétt hitastig (15-20 °C) og rakastig (40-70 %) skipta máli hvernig til tekst.

Lesið vandlega á dósarmiða áður en vinnan hefst.

Litaprufur geta verið afar hjálplegar við val á litum. Hægt að fá litlar handhægar litaprufur í öllum litum og prófa hinar og þessar litasamsetningar.

Ekki er allt sem sýnist í litakortum. Margir litir, sem þar eru, hafa svokallaða viðvörun, vegna ýmissa ágalla. Þar má nefna lélega dekkingu, lélegt sólþol og fl. Öllum þessum vafaatriðum á sölufólk að bregðast við og aðvara kaupendur.

Að mála við utandyra

Gott að vita …

Andstæðurnar í veðurfarinu í okkar heimshluta eru mjög krefjandi fyrir allt byggingarefni. Viður er ákaflega fallegt en viðkvæmt byggingarefni sem taka verður mikið tillit til þegar viðhald er annars vegar. Eftirfarandi skiptir máli varðandi áferð, lit og gljáa þegar viður er málaður.

Það er mikilvægt að viður standi ekki lengi óvarinn. Annars er hætta á að hann gráni. Ef viður gránar þarf að fjarlægja gráma t.d. með slípun

Viður skal vera þurr og hreinn við málun.

Viður er mismunandi hvað varðar mettun. Ef viðurinn er sjúgandi getur verið nauðsynlegt að metta hann með Viðar grunnvörn eða grunna fyrst með glærum Viðar hálfþekjandi. Litur og gljái getur haft mismunandi blæbrigð ef flöturinn sjúgandi.

Það er góð vinnuregla að gera prufu á einu borði í klæðningunni, til að sannreyna hvort áferð og litur, séu eins og var valið.

Ef of lítill litur er notaður í hálfþekjandi efni getur grámi byrjað undir filmunni og flögnun átt sér stað. Meiri filmuþykkt og litur gefur lengri endingu.

Athugið að litur dökknar við hverja umferð þegar málað er með hálfþekjandi efni. Þegar réttum lit er náð er hann látinn standa eða málað yfir með glæru til að auka þykkt. Hafi fyrri umferð gefið þann lit sem óskað er, skal sú seinni vera glær. Ef örlítið vantar upp á litinn eftir fyrri umferð er hægt að þynna litinn með glærum Viðar hálfþekjandi. Þess ber þó að geta að liturinn felur í sér vörn gegn sólarljósi.

Litur dökknar við hverja umferð sem máluð er. Ef menn vilja lýsa upp lit á gömlu yfirborði getur borgað sig að mála eina umferð með gulum Viðari hálfþekjandi og mála síðan yfir með þeim lit sem óskað er. Sjá nánar í umfjöllun í ,,Litasíðu – viðarvörn“.

Málið fjöl fyrir fjöl til að fá jafna og fallega áferð.

Ef menn vilja lýsa upp lit getur borgað sig að mála eina umferð með gulum Viðari hálfþekjandi og mála síðan yfir með þeim lit sem óskað er.

Sé valinn bláleitur eða gráleitur litur, er mælt sterklega með að grunna með einni umferð af Viðar hálfþekjandi, hvítum til að koma í veg fyrir gulnun úr viðnum.

Sé um að ræða mjög illa farinn við er ráðlegt að skipta yfir í Viðar þekjandi eða grunnmála með Viðari grunnmálningu og mála síðan með Hjörva 30.

Hjálparblöð til útreikninga á málningarmagni og fleira.

Hvað þarf ég mikla málningu?
Múrhúð og steinsteypa utanhúss

Hvað þarf ég mikla málningu?
Múrhúð og steinsteypa utanhúss

Hvað þarf ég mikla málningu?
Viður og trévirki